Gott hjá þeim

Hverjir skyldu nú vita betur, starfsmenn OR eða frjálshyggjudrengirnir hjá Heimdalli? Það undrar engan að þeir ætli að kenna starfsmönnum OR um hrakfarir Sjálfstæðismanna í borginni. En þeir sem vilja veg OR sem mestan harma þessa ákvörðun og telja hana ranga.

 


mbl.is Starfsmenn OR undrandi á að forstjóra sé vikið úr starfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skyldi nokkurn undra?

Ég er ekki hissa á þessari niðurstöðu. Raunar varð ég heldur ekki undrandi þegar ég las að Guðmundur Þóroddsson hefði verið látinn fara frá Orkuveitu Reykjavíkur. Það eru mikil mistök.

Guðmundur Þóroddsson þykir sérfræðingur á sínu sviði og hans bíða örugglega verðug verkefni innan fyrirtækja sem kunna betur að meta þekkingu hans og þor heldur en meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur gerir. Það er ekki spurning um hvort heldur hvenær.

Framganga meirihlutans í Reykjavík innan stjórnar OR vekur einnig upp spurningar um stöðu Hjörleifs Kvarans hjá Orkuveitunni. Það skyldi engan undra að hann yrði látinn taka pokann sinn sömuleiðis. Ekki vegna þess að hann hafi staðið sig illa. Nei, vegna þess að þeir Guðmundur þurfa að borga mistök Vilhjálms Vilhjálmssonar dýru verði.

Hvað ætli menn segi þegar Bjarni Ármannsson og fleiri stofna fyrirtæki sem mun taka við öllum þeim tækifærum sem buðust OR? Stofnendur slíks fyrirtækis munu fagna aðkomu stjórnenda og sérfræðinga eins og þeirra sem eru látnir yfirgefa OR til að halda friðinn innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna í Reykjavík.

Þegar upp er staðið verða það samt eigendur fyrirtækisins (hinn almenni borgari) sem blæða fyrir klúður Vilhjálms Þ. Það er frekar ömurlega niðurstaða og engum til sóma. Meirihlutinn í Reykjavík nýtur minna fylgis meðal borgarbúa en ásættanlegt er. Énn færri treysta borgarstjóranum! Skyldi nokkurn undra??

 


mbl.is Fylgi D-lista aldrei minna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mega menn ekki tjá sig í búningi ÍA?

Ég var furðu lostin þegar ég las þessa setningu. Mega liðsmenn ÍA ekki tjá sig við fjölmiðla þegar þeir klæðast félagsbúningnum? Getur þetta verið rétt og hver ákvað það?

Ég er stolt af því að vera Skagamaður. Ég er ekki alltaf sammála okkar ágæta þjálfara þegar hann talar við fjölmiðla um knattspyrnu en það er bara allt í lagi. Hann hefur ákveðnar skoðanir og veit sjálfsagt manna best að það eru ekki allir sammála honum. En varla hefur hann bannað leikmönnum að tjá sig við fjölmiðla?

Guðjón nefndi í viðtalinu að það ríkti tjáningarfrelsi á Íslandi og hann mætti hafa sínar skoðanir. Það er auðvitað rétt. En gilda ekki lög um tjáningafrelsi líka um leikmenn meistaraflokks ÍA? Ég held að menn verði að svara því. Hér hlýtur að vera um misskilning að ræða.


mbl.is „Mikill heiður að fá spila fyrir Íslands hönd“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stolt, glöð og þakklát

Á síðustu viku hef ég tvisvar farið í Tónberg sem er salur tónlistarskólans á Akranesi. Í bæði skiptin fékk ég tár í augun. Stolt í bæði skiptin, já! Glöð í bæði skiptin, já! Þakklát í bæði skiptin, já!

Í fyrra skiptið fór ég á tónleika Þjóðlagasveitar Tónlistarskólans. Þeir voru svo frábærir. Í þjóðlagasveitinni eru á annan tug stúlkna sem leika á fiðlur, syngja og tala undir stjórn Ragnars Skúlasonar. Nokkrum sinnum vöknaði mér um augu af hrifningu og gleði, en tvisvar beinlínis grét ég og var ekki ein um það. Þegar Kristín Sigurjónsdóttir söng lag Megasar Tvær stjörnur og síðan þegar Ylfa Flosadóttir söng Rósina. Það mætti lýsa þessu í lengra máli og með fleiri lýsingarorðum en þetta voru stórkostlegir tónleikar sem fólk á alls ekki að láta fram hjá sér fara.

Ég fékk aftur tár í augun á kynningarfundi um komu flóttafólks til Akraness. Fullt var út úr dyrum, fólk á öllum aldri af báðum kynjum hlustaði á upplýsingar og kynningu og fagnaði því sem það heyrði. Fundurinn var vandaður og málflutningur framsögumanna með ágætum. Á engan er hallað þótt minnst sé sérstaklega á unga konu frá Júgóslavíu sem þakkaði fyrir að hafa öðlast nýtt líf á Íslandi.

Það er eðlilegt að skiptar skoðanir séu um málefni. Það er eðlilegt að umræða fari fram um mál. Það er betra ef slík umræða er á uppbyggilegum og faglegum nótum. Það hafa margir skrifað um komu flóttamanna til Akraness. Við vitum öll um málflutning Magnúsar Þórs sem hefur að mínu mati farið offari. Þótt hann eigi rétt á sínum skoðunum þá hefur hann ekki rétt á að tala bæjarfélagið sitt / okkar niður með þeim hætti sem hann hefur gert. Landsmenn mega ekki fá á tilfinninguna að allt sé á vonarvöl á Akranesi og að hér ríki sérstök eymd. Það er ekki rétt.

Það er mikilvægt að bæjarbúar eigi skoðanaskipti og takist á um ágreiningsmál en það er ekki síður mikilvægt að menn standi saman þegar lýðræðisleg niðurstaða er fengin. Magnús Þór hefur verið talsmaður þess að pólítískt kjörnir fulltrúar hafi umboð kjósenda til að móta stefnu. Og jafnframt að meirihlutinn ráði ferð ef um ágreining er að ræða. Þetta eru leikreglur lýðræðisins.

Upplifun mín eftir fundinn og tónleikana í Tónbergi var stolt, gleði og þakklæti fyrir að vera hluti þess frábæra fólks sem býr á Akranesi. Verum stolt af bænum okkar, hrósum honum og hvert öðru. Áfram Skagamenn.


Frábær grein Halldórs Jónssonar í Skessuhorni

Ég get ekki stillt mig um að setja hér inn grein sem Halldór Jónsson skrifaði í Skessuhorn og leyfa öðrum að njóta hennar. Greinin er málefnalega og vel skrifuð af mikilli virðingu og mannúð. Glæsilegt, Halldór.

Halldór Jónsson

Sómamenn Skagamenn

Ákvörðun um að flytjast með fjölskyldu sína milli landshluta getur verið erfið. Ennþá erfiðara er að ákveða hvert skal flytja til þess að hefja nýtt líf. Að mörgu er að hyggja. Fyrir þremur árum stóð fjölskylda mín frammi fyrir þessari ákvörðun. Þar komu vissulega nokkrir kostir til greina. Eftir að hafa vegið og metið kosti og galla einstakra byggðarlaga stóð Akranes langt uppúr. Þangað fluttum við. Hér var samfélag í sókn. Hér var félagsþjónusta í fremstu röð. Hér voru leikskólar, grunnskólar, fjölbrautaskóli og tónlistarskóli. Og það sem meira var, allir voru skólarnir fremstir meðal jafningja á landinu. Hér var rómað félagslíf,  heilbrigðisþjónusta eins og hún gerist best og rótgróin þjónustufyrirtæki á öllum sviðum. Íþróttaafrek um Skagamanna og aðstöðunni til iðkan íþrótta höfðum við dáðst að alla tíð. Hér var fjölskrúðugt mannlíf og slík fjölbreytni ber einatt ber vott um víðsýni og umburðarlyndi. Við fluttum á Skagann og höfum ekki séð eftir því.

 

Erfiðir tímar
Seinni hluti tíunda áratugs síðustu aldar er eitt hörmulegasta og erfiðasta tímabil sem íbúar á norðanverðum Vestfjörðum hafa upplifað. Árið 1994 misstu Ísfirðingar vetrarparadís sína í snjóflóði. Sama flóð lagði í rúst sumarbústaða þeirra. Hörmulegast var að í þessu flóði fórst einn af forystumönnum bæjarbúa í stjórnmálum og íþróttamálum. Þetta var Ísfirðingum ólýsanlegt áfall. Endurbyggingin hófst samt umsvifalaust. Í þeirri uppbyggingu miðri snemma árs 1995 féll snjóflóð sem hrifsaði hluta nágrannabyggðarinnar í Súðavík og 14 íbúar fórust. Þá voru dimmir dagar. Á augabragði skaut fólk skjólshúsi yfir Súðvíkinga og í sameiningu reyndi fólk að ná áttum. Mitt í þeirri vinnu féll næsta högg og það þyngsta. Í október árið 2005 féll snjóflóð á byggðina á Flateyri. Tuttugu manns fórust og stór hluti byggðarinnar var í rúst. Á þessum tíma var einnig unnið að sameiningu sveitarfélaga á norðanverðum Vestfjörðum sem mynduðu síðar Ísafjarðarbæ.

 Óleysanlegt verkefni?
Íbúar á norðanverðum Vestfjörðum stóðu frammi fyrir nánast óleysanlegu verkefni. Á meðan fólk vann úr sínum mikla missi þurfti í raun að taka ákvörðun um áframhald byggðar á þessu svæði. Var það byggilegt? Endurvekja þurfti þrótt íbúa og sannfæra aðra um að byggð á þessu svæði ætti sér von. Að vonum reyndi þetta mjög á öll svið mannlífs. Ekki síst þá félagslegu. Sem betur fer var unnið kraftaverk. Ekki bætti úr skák að á þessum tíma átti helsti atvinnuvegur Vestfirðinga, sjávarútvegurinn, mjög undir högg að sækja. Aflasamdráttur og aukin tækni leiddi til þess að störfum fækkaði mjög auk þess sem fyrirtæki fluttust á brott með tilheyrandi röskum fyrir starfsmenn þeirra. Óhætt er að segja að þessi ár hafi Vestfirðingar tæknilega séð ekki verið aflögufærir.

 

Neyðarkall berst
Í miðju kafi endurreisnar kom kallið. Ísfirðingar voru beðnir að taka á móti hópi flóttamanna frá stríðshrjáðri Júgóslavíu. Fólki sem upplifað hafði ólýsanlegar hörmungar styrjaldar. Svarað var umsvifalaust. Að sjálfsögðu var allt þetta fólk velkomið vestur. Önnum kafið fólkið vestra bætti bara við sig. Þegar fólk er í nauðum er tímanum ekki eytt í ómerkileg formsatriði eða vangaveltur um uppruna, aldur, fjölskyldustærð, kynþátt eða fortíð. Engum Vestfirðingi datt í hug að eigin annir eða óleyst vandamál hefðu áhrif á viðbrögð þeirra. Þegar hjálparkall berst búast menn til björgunar.
Það er ekki auðvelt að rifja upp þessa atburði. Þeir hafa hins vegar leitað á undanfarna daga hjá þeim sem fyrir þremur árum tóku þá ákvörðun að flytja frá Djúpi til Akraness.

 

Skagamenn bregðast (við?)
Neyðarkall sem barst utan úr heimi til Akraness á dögunum er orðið deiluefni í bæjarfélaginu. Deilurnar eru ekki um hvernig fljótlegast sé að bregðast við heldur hvort bregðast skuli við. Bæjarstjórn hefur þó sem betur fer af röggsemi og hjartahlýju tekið af skarið og einróma boðið fólkið velkomið.
Í sjávarplássinu Akranesi stendur  samt fámennur hópur fólks við ströndina og veltir því fyrir sér hvort rétt sé að veita fólki í brimskafli styrjaldar aðstoð úr samfélagi allsnægtanna. Samfélagi sem um árabil hefur verið í stórsókn. Sem á svo miklu auðveldara með að gefa en mörg þau sveitarfélög sem aðstoðað hafa flóttamenn  með glöðu geði á undanförnum árum.
Ég trúi því ennþá að það hafi verið rétt ákvörðun að flytja til Akraness. Ég trúi því líka að á næstu vikum sýni Skagamenn samstöðu um að veita því fólki aðstoð sem hennar hefur leitað. Skipti þá engu hver uppruni þeirra er, fortíð þeirra eða lífsreynsla. Skagamenn eru sómamenn og ég trúi því að það muni þeir sanna enn einu sinni á næstu vikum og mánuðum.

 

Ungur afreksmaður

Það er alltaf gaman þegar ungir og efnilegir leikmenn fá tækifæri til að leika með landsliði. Arnór hefur spilað með hollensku liði í mörg ár og Íslendingar kannski ekki haft tækifæri til að fylgjast með honum sem skyldi. en hann er frábær fótboltamaður.

Það var einstök upplifun að fylgjast með ungum og öldnum knattspyrnuhetjum Skagamanna ganga inn í Akraneshöllina á annan dag hvítasunnu, allir klæddir í gula og svarta búninga með ungan Akurnesing sér við hlið. Ég held að það hafi fleiri en ég fengið tár í augun. Áhorfendur, sem skiptu þúsundum, klöppuðu hetjunum sínum lof í lófa. Tvö lið undir stjórn Harðar Helgasonar og Guðjóns Þórðarsonar spiluðu síðan fótbolta við fögnuð viðstaddra. Margir sýndu gamla takta en augljóslega farið að hægja á sumum.

Það er ástæða til að þakka fyrir þessa hátíð sem lengi verður í minnum höfð.


mbl.is Arnór í fyrsta sinn í A-landsliðshópi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Gulla og Seltirningar

Grunnskólarnir á Seltjarnarnesi fá þarna frábæran skólastjóra, hugmyndaríka og metnaðarfulla konu sem leggur sig alla í það sem hún tekur fyrir hendur.


mbl.is Nýr skólastjóri Grunnskóla Seltjarnarness
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálslyndir!

Skagamenn hafa fengið nýjan meirihluta ef svo má segja. Karen og Gísli eru gengin í Sjálfstæðisflokkinn sem hefur þá fimm bæjarfulltrúa, pólítískan bæjarstjóra og hreinan meirihluta. Í sjálfu sér ekki mikil breyting fyrir bæjarbúa. Karen hefur gefið þá skýringu að Magnús Þór Hafsteinsson hafi stillt henni upp við vegg og hún hafi ekki átt annarra kosta völ.  Gísli gekk í Sjálfstæðisflokkinn af því að samstarfið við Gunnar og Karen hefur gengið svo vel en hann ætlar að vera jafnaðarmaður áfram. Gott hjá honum.

Magnús er mjög óhress með þessa ákvörðun Karenar og kallar hana valdarán. Hún hafi farið með umboð kjósenda Frjálslynda flokksins og eigi ekkert með að afhenda það umboð Sjálfstæðisflokknum á Akranesi. Þessu eru mjög margir sammála og líklega skynsamlegt að setja einhvers konar löggjöf sem kemur í veg fyrir að sveitarstjórnamenn eða alþingismenn skipti um skipspláss í miðjum túr. Það vekur hins vegar furðu að Magnús Þór skuli bregðast svona við. Mig minnir að Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður og Valdimar Friðriksson, varaþingmaður hafi báðir sagt sig úr sínum flokkum til að ganga til liðs við Frjálslynda við lok síðasta kjörtímabils. Ég man ekki betur en Magnús og félagar hafi fagnað þeim innilega. Það gilda líklega ekki sömu reglur um alla...

Magnús hefur undanfarið tjáð þá skoðun að Akraneskaupstaður geti ekki tekið við flóttamönnum. Hann gefur þær skýringar að aðdragandi sé stuttur, lítið svigrúm til undirbúnings, mikla óvissu í málinu og síðast en ekki síst horfurnar í bæjarfélaginu. Hann spyr líka spurninga sem vissulega eiga rétt á sér eins og um atvinnumál, húsnæðismál, heilsugæslu og þjónustu leik- og grunnskóla. Auðvitað verður að fara í mikla undirbúningsvinnu og skoða rækilega einmitt þessa þætti sem Magnús nefnir. Lausnirnar blasa kannski ekki við en við eigum að geta fundið skynsamlegar lausnir.

Magnús nefnir líka að kreppunnar sé farið að gæta á Akranesi. Það er gott að hann er vaknaður því hingað til hefur hann sofið á verðinum ef þetta er skoðun hans. Kreppan kom nefnilega ekki í síðustu viku. Hann hefur átt aðild að meirihluta bæjarstjórnar undanfarin tvö ár og á bæjarstjórnarfundi fyrir skömmu sagðist hann alsæll í meirihlutanum. Hann hefur ekki hingað til minnst á kreppu eða þrengingar í bæjarbúskapnum. Minnihluti bæjarstjórnar hefur lagt fram allnokkrar tillögur sem lúta að því að lækka framfærslukostnað barnafjölskyldna á Akranesi. Þær hafa allar verið felldar. Ég hef ekki sérstaklega orðið þess vör að Magnús legði þeim lið hvorki í ræðu né riti.

Þegar virðisaukaskattur á matvæli var lækkaður lögðu bæjarfulltrúar minnihlutans til að einingaverð í mötuneytum grunn- og leikskóla bæjarins yrði lækkað. Því var vísað inn í bæjarráð þar sem það var á endanum fellt. Það hefur líka verið lagt til ítrekað að lækka dvalargjöld á leikskólum og í skóladagvistum grunnskólanna. Þegar foreldrar leikskólabarna skrifuðu bæjaryfirvöldum kallaði Magnús þá dóna. Hann átti ekki orð yfir frekjuna og framkomuna!

Akraneskaupstaður leggur umtalsvert minna í beina styrki til foreldra vegna tómstundastarfs barna og unglinga. Það eru 5000 krónur á ári fyrir hvert barn og hefur upphæðin verið óbreytt síðastliðin þrjú ár. Þessu þarf að breyta.

Magnús var ákaflega stoltur yfir nýja tónlistarskólanum sem kostaði ríflega 500 milljónir króna. Honum fannst framúrakstur upp á einhverja tugi milljóna vera smámunir og fórnarkostnaður! gott ef honum fannst ekki bæjarfulltrúar minnihlutans óttalegir nirflar. Meirihlutinn hefur auðvitað gert margt ágætlega en þeir hafa farið offari í fjárfestingum. Fjárfestingarnar núverandi meirihluta liggja í steinsteypu, en ekki fólki. Því skulum við breyta. Um það getum við Magnús Þór líklega verið sammála.


Það var gott!

Mikið er ég fegin að menn hafa komið sér saman um að þetta mál. Það er þjóðfélaginu til skammar að viðhalda mismunun sem þessari. Og mér finnst líka sjálfsagt mál að lögin séu afturvirk. Það er ekki algengt að svo sé með lagasetningu en þegar um er að ræða jafn umdeilt mál og þetta, þá á bara að klára það. Þeir aðilar sem þarna fengu hundruði þúsunda í viðbótarlaun höfðu allir mikið meira en nóg fyrir.  Burt með þessa skömm.
mbl.is Eftirlaunalög Alþingis verða felld úr gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðismenn í vanda - menn eða mýs?

Sjálfstæðismenn hafa víðar áhyggjur af sínum mönnum og samstarfi þeirra við Frjálslynda. Mér er sagt að sjálfstæðismenn á Akranesi hafi margir áhyggjur af bæjarstjórnarmeirihlutanum hér. Jú, jú, berin eru súr og auðvitað vildi ég gjarnan vera í meirihluta en ekki minnihluta. En ekki fyrir hvað sem er og ekki heldur á hvaða forsendum sem er eins og nú er á Akranesi!

Nú verður bæjarstjórnarmeirihlutinn til dæmis að gera það upp við sig hvort hann ætlar að láta Magnús Þór Hafsteinsson, varabæjarfulltrúa Frjálslyndra og formann félagsmálaráðs slátra hugmyndinni um að taka við 30 flóttamönnum frá Palestínu (Sigurjón Þórðarson sagði frá Írak en ég held að það sé rangt). ERum við menn eða mýs?

Skagamenn munu í dag hópast í Akraneshöllina og fylgjast með ungum og öldnum knattspyrnuhetjum spila knattspyrnu og fagna langri sigursögu Skagamanna í þessari íþróttagrein. Skagamenn eru bestir, það vitum við öll. Skagamenn skora mörkin, það vitum við líka.

En ætla Skagamenn að skora í mannúðarmálum? Það ræðst af viðhorfi Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Akraness.  Ætla Sjálfstæðismenn á Akranesi að láta Magnús Þór Hafsteinsson segja sér fyrir verkum? Munu Sjálfstæðismenn sitja eins og hlýðnir hundar og segja nei eða munu þeir standa beinir í baki og láta gott af sér leiðameð því að samþykkja að Akraneskaupstaður taki á móti flóttamönnum? Það getur ráðist á morgun þegar bæjarstjórn kemur saman.


mbl.is Ástandið veldur sjálfstæðismönnum áhyggjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Hrönn Ríkharðsdóttir
Hrönn Ríkharðsdóttir
Skagamaður af 54-módelinu, Arsenal-aðdáandi og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akranesi.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 46662

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband