Frábær grein Halldórs Jónssonar í Skessuhorni

Ég get ekki stillt mig um að setja hér inn grein sem Halldór Jónsson skrifaði í Skessuhorn og leyfa öðrum að njóta hennar. Greinin er málefnalega og vel skrifuð af mikilli virðingu og mannúð. Glæsilegt, Halldór.

Halldór Jónsson

Sómamenn Skagamenn

Ákvörðun um að flytjast með fjölskyldu sína milli landshluta getur verið erfið. Ennþá erfiðara er að ákveða hvert skal flytja til þess að hefja nýtt líf. Að mörgu er að hyggja. Fyrir þremur árum stóð fjölskylda mín frammi fyrir þessari ákvörðun. Þar komu vissulega nokkrir kostir til greina. Eftir að hafa vegið og metið kosti og galla einstakra byggðarlaga stóð Akranes langt uppúr. Þangað fluttum við. Hér var samfélag í sókn. Hér var félagsþjónusta í fremstu röð. Hér voru leikskólar, grunnskólar, fjölbrautaskóli og tónlistarskóli. Og það sem meira var, allir voru skólarnir fremstir meðal jafningja á landinu. Hér var rómað félagslíf,  heilbrigðisþjónusta eins og hún gerist best og rótgróin þjónustufyrirtæki á öllum sviðum. Íþróttaafrek um Skagamanna og aðstöðunni til iðkan íþrótta höfðum við dáðst að alla tíð. Hér var fjölskrúðugt mannlíf og slík fjölbreytni ber einatt ber vott um víðsýni og umburðarlyndi. Við fluttum á Skagann og höfum ekki séð eftir því.

 

Erfiðir tímar
Seinni hluti tíunda áratugs síðustu aldar er eitt hörmulegasta og erfiðasta tímabil sem íbúar á norðanverðum Vestfjörðum hafa upplifað. Árið 1994 misstu Ísfirðingar vetrarparadís sína í snjóflóði. Sama flóð lagði í rúst sumarbústaða þeirra. Hörmulegast var að í þessu flóði fórst einn af forystumönnum bæjarbúa í stjórnmálum og íþróttamálum. Þetta var Ísfirðingum ólýsanlegt áfall. Endurbyggingin hófst samt umsvifalaust. Í þeirri uppbyggingu miðri snemma árs 1995 féll snjóflóð sem hrifsaði hluta nágrannabyggðarinnar í Súðavík og 14 íbúar fórust. Þá voru dimmir dagar. Á augabragði skaut fólk skjólshúsi yfir Súðvíkinga og í sameiningu reyndi fólk að ná áttum. Mitt í þeirri vinnu féll næsta högg og það þyngsta. Í október árið 2005 féll snjóflóð á byggðina á Flateyri. Tuttugu manns fórust og stór hluti byggðarinnar var í rúst. Á þessum tíma var einnig unnið að sameiningu sveitarfélaga á norðanverðum Vestfjörðum sem mynduðu síðar Ísafjarðarbæ.

 Óleysanlegt verkefni?
Íbúar á norðanverðum Vestfjörðum stóðu frammi fyrir nánast óleysanlegu verkefni. Á meðan fólk vann úr sínum mikla missi þurfti í raun að taka ákvörðun um áframhald byggðar á þessu svæði. Var það byggilegt? Endurvekja þurfti þrótt íbúa og sannfæra aðra um að byggð á þessu svæði ætti sér von. Að vonum reyndi þetta mjög á öll svið mannlífs. Ekki síst þá félagslegu. Sem betur fer var unnið kraftaverk. Ekki bætti úr skák að á þessum tíma átti helsti atvinnuvegur Vestfirðinga, sjávarútvegurinn, mjög undir högg að sækja. Aflasamdráttur og aukin tækni leiddi til þess að störfum fækkaði mjög auk þess sem fyrirtæki fluttust á brott með tilheyrandi röskum fyrir starfsmenn þeirra. Óhætt er að segja að þessi ár hafi Vestfirðingar tæknilega séð ekki verið aflögufærir.

 

Neyðarkall berst
Í miðju kafi endurreisnar kom kallið. Ísfirðingar voru beðnir að taka á móti hópi flóttamanna frá stríðshrjáðri Júgóslavíu. Fólki sem upplifað hafði ólýsanlegar hörmungar styrjaldar. Svarað var umsvifalaust. Að sjálfsögðu var allt þetta fólk velkomið vestur. Önnum kafið fólkið vestra bætti bara við sig. Þegar fólk er í nauðum er tímanum ekki eytt í ómerkileg formsatriði eða vangaveltur um uppruna, aldur, fjölskyldustærð, kynþátt eða fortíð. Engum Vestfirðingi datt í hug að eigin annir eða óleyst vandamál hefðu áhrif á viðbrögð þeirra. Þegar hjálparkall berst búast menn til björgunar.
Það er ekki auðvelt að rifja upp þessa atburði. Þeir hafa hins vegar leitað á undanfarna daga hjá þeim sem fyrir þremur árum tóku þá ákvörðun að flytja frá Djúpi til Akraness.

 

Skagamenn bregðast (við?)
Neyðarkall sem barst utan úr heimi til Akraness á dögunum er orðið deiluefni í bæjarfélaginu. Deilurnar eru ekki um hvernig fljótlegast sé að bregðast við heldur hvort bregðast skuli við. Bæjarstjórn hefur þó sem betur fer af röggsemi og hjartahlýju tekið af skarið og einróma boðið fólkið velkomið.
Í sjávarplássinu Akranesi stendur  samt fámennur hópur fólks við ströndina og veltir því fyrir sér hvort rétt sé að veita fólki í brimskafli styrjaldar aðstoð úr samfélagi allsnægtanna. Samfélagi sem um árabil hefur verið í stórsókn. Sem á svo miklu auðveldara með að gefa en mörg þau sveitarfélög sem aðstoðað hafa flóttamenn  með glöðu geði á undanförnum árum.
Ég trúi því ennþá að það hafi verið rétt ákvörðun að flytja til Akraness. Ég trúi því líka að á næstu vikum sýni Skagamenn samstöðu um að veita því fólki aðstoð sem hennar hefur leitað. Skipti þá engu hver uppruni þeirra er, fortíð þeirra eða lífsreynsla. Skagamenn eru sómamenn og ég trúi því að það muni þeir sanna enn einu sinni á næstu vikum og mánuðum.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Hrönn Ríkharðsdóttir
Hrönn Ríkharðsdóttir
Skagamaður af 54-módelinu, Arsenal-aðdáandi og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akranesi.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 62
  • Frá upphafi: 45011

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 58
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband