Hið nýja líf bankanna

Get ekki orða bundist. Hvernig er það eiginlega með bankanna? Lifa þeir algerlega sjálfstæðu og óháðu lífi í kerfinu? Eru þetta ekki ríkisbankar?

Ofurlaun í bankakerfinu voru réttlætt með ýmsum hætti, flest óskiljanlegt venjulegu fólki. En það er nákvæmlega ekki neitt sem réttlætir laun bankastjóra nýju bankanna. Það er óviðunandi að þeir séu nú þegar komnir með hærri laun en t.d. forsætisráðherra landsins. Er það vegna ábyrgðar eða áreitis, mikillar vinnu eða hvað? Þessi laun á ríkisvaldið að lækka umsvifalaust. Ef ekki verður brugðist við núna verður erfiðara að taka í taumana síðar.

 


mbl.is Bréfakaup ákveðin af bönkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlakkar í honum?

Það er erfitt að lesa í viðbrögð Steingríms Sigfússonar. Stundum hef ég á tilfinningunni að það hlakki í honum. Það hafa margir ástæðu til að gagnrýna bæði núverandi ríkisstjórn en ekki síður þá sem sat áður en hafði einhverjum dottið í hug að ástandið yrði svona skelfilegt. Kannski Steingrími. en helvíti er það hart að hann skuli ekki hafa vit á að sleppa glottinu og leggja eitthvað til málana. Það  er með ólíkindum hvað hann er bara alltaf á móti. Engar raunhæfar lausnir, bara eitthvað annað en verið er að gera. Hann þyrfti að komast í meirihluta og þurfa að bera ábyrgð á erfiðum ákvörðunum sem endast varla daginn af því að eitthvað nýtt kemur upp á.

Svo væri líka gott ef Guðni Ágústsson vaknaði af þeim óminnissvefni sem hrjáir hann. Bara til að rifja upp fyrir þeim ágæta manni var hann og hans flokkur í ríkisstjórn þrjú kjörtímabil fyrir 2007. Svaf hann á öllum ríkisstjórnarfundum? Maðurinn verður að hysja upp um sig og reyna að muna hverju hann tók þátt í. Það var á ríkisstjórnartíma hans (og fleiri) sem bindiskyldan var afnumin, sem engin höft voru á útrás bankanna, sem fjármálaeftirlitið var sett á laggirnar og vanað um leið. Guðni sat í ríkisstjórn þegar Davíð Oddsson var gerður að seðlabankastjóra. Koma svo, Guðni. Þú ert klárari en þetta.

Ríkisstjórnin verður svo auðvitað að upplýsa þjóðina betur en gert hefur verið. Ef við látum ráðherrana njóta vafans og segjum að það sé bara ekki hægt að vinna hraðar eða segja meira þá verða þeir að setja sig í spor almennings sem veit ekki í hvorn fótinn skal stíga og hefur mjög misvísandi upplýsingar svo ekki sé meira sagt. Mikill uggur er í fólki og almennur kvíði. Er það nema von?


mbl.is Alfarið á ábyrgð ríkisstjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott hjá þér!

Ég er sammála stóru systur minni í þessu máli. Hér eiga flokkabönd ekki að skipta máli heldur almennt siðferði manna. Almenningi er misboðið með margs konar framferði manna og kvenna. Seðlabankastjórnin verður að víkja nú þegar og kannski einhverjir fleiri.

Síðasta (eða kannski nýjasta) hneykslið á okkar litla landi er Stóra Kaupþingsmálið þar sem yfirmenn í bankanum virðast vera undanþegnir því að endurgreiða lán sem þeir tóku fyrir hlutabréfum í bankanum. Til að fá úr málinu skorið á að kæra það til lögreglu nú þegar. Spurning hver er hæfur til að rannsaka það en undan því verður ekki vikist. Það er með öllu ólíðandi að þeir sem hafa innan bankanna skammtað sér himinhá laun í skjóli ábyrgðar skuli nú ganga út ábyrgðarlausir hafandi jafnvel aflétt skuldum nánasta samstarfsfólks.

Svo ítreka ég þá skoðun mína að bankastjóri Nýja Glitnis verði látin víkja vegna vanhæfni. Hún er rúin trausti eftir eigið hlutabréfasukk. Fyrir venjulegt fólk sem berst fyrir því að borga af lánum er óskiljanlegt hvernig einhver getur misst af því að borga af 190 milljóna láni. Hverjir eru í slíkri aðstöðu? Innherjarnir sem græddu á upplýsingum sem aðrir fengu ekki, bæði þegar vel áraði og ekki síður þegar harðna tók á dalnum.

Fagna því mjög að fleiri og fleiri eru sammála um skuldajöfnunarleiðina gagnvart bönkunum. Sú hugmynd hlýtur að fá byr undir báða vængi nú þegar þeir sem mest hafa eru lausir við skuldirnar en almenningur þarf að borga sínar. Þetta er svívirðilegt ef satt er.

Svo langar mig til að koma með vísu sem ég lærði sem krakki og á ágætlega við í dag þegar við efumst stöðugt um það sem okkur er sagt:

Satt og logið sitt á hvað

sönnu er best að trúa.

en hvernig á að þekkja það?

Þegar flestir ljúga.


mbl.is Bankastjórar og bankaráð víki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hæfir?

Hvernig geta menn talið sig hæfa við þessar aðstæður? Stjórnsýslulögin kveða líklega á um að svo sé ekki.  Eru menn alveg veruleikafyrrtir? Almenningur er að glata trú á ráðamenn, því miður. Ríkisstjórninni hefur enn sem komið er ekki tekist að sannfæra landsmenn um að nú eigi að gera hlutina öðruvísi. 

Bankarnir lifa enn sjálfstæðu lífi, að því er virðist. Ekki þarf að hafa mörg orð um Seðlabankann eða stjórnendur þar. Það mál skilur ekki venjulegt fólk. Fréttir utan úr heimi segja að seðlabankar séu nú að lækka stýrivexti en hér er farið í þveröfuga átt. Það eru örugglega einhver rök í málinu en þau eru bara ekki nógu skýr.

Skilanefndir ríkisbankanna hafa valið sér bankastjóra og skammta þeim laun. Voru þeir ekki allir virkir þátttakendur í bönkunum fyrir? Mörgum finnst það óeðlilegt. Það er t.d. mjög ótrúverðugt við núverandi aðstæður að hlusta á bankastjóra lýsa því hvernig hann "missti af" 190 milljóna hlutabréfakaupum án þess að gera sér grein fyrir því.

Menn verða núna að feta hinn mjóa veg og hver sá sem ekki er hafinn yfir allan vafa um tengsl við bankahrunið verður að víkja fyrir einstaklingum sem ekki eiga neinna hagsmuna að gæta. Það getur verið erfitt að finna þá en um það er ekkert val.


mbl.is Álíta sig hæfa til að rannsaka syni sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilyrðislaus ábyrgð á séreignalífeyrissparnaði og skuldajöfnun

Við setningu neyðarlaga lýsti forsætisráðherra því yfir að innlán og séreignalífeyrissparnaður landsmanna yrði varinn. Nú hefur annað komið í ljós. Það er fullkomlega óásættanlegt. Ríkisstjórnin verður að standa við þessi orð forsætisráðherra. Gleymum því ekki heldur að fyrirtæki í landinu hafa greitt mótframlag vegna þessa lífeyrissparnaðar og þau eiga nú að sætta sig við að þeim fjármunum sé bara hent út um gluggann. Nei takk.

Séreignalífeyrir er í mörgum tilvikum eini sparnaður fólks. Um þennan séreignalífeyri hefur verið samið í kjarasamningu með aðkomu ríkisvaldsins sem ætlar núna að vera stikkfrí. Það er bara ekki í boði. Ég skora á launafólk að láta í sér heyra varðandi þetta. Ef íslenska ríkið getur borgað innlán breskra og hollenskra einstaklinga á það að sjá sóma sinn í að greiða íslenskum launþegum það sem þeir eiga í séreignalífeyrissparnaði.

Svo vil ég opna hér umræðu um að hugsanlegt tap einstaklinga verði skuldajafnað við bankana. Það er ótrúleg ósvífni að innheimta skuldir einstaklinga sem bankinn hefur tapað milljónum fyrir. Nú eiga menn bara að segja nei, takk. Ég borga ekki krónu fyrr en ég veit hverju ég hef tapað og svo verður það látið upp í skuldir viðkomandi við lánastofnanir. Látum ekki kúga okkur til hlýðni við stofnanir sem eru rúnar öllu trausti almennings.

 


mbl.is Landsbankinn greiðir upp peningamarkaðssjóðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stúkur á knattspyrnuvöllum

Reglur UEFA eru svo ósveigjanlegar og að mörgu leyti fáránlegar að íþróttafélög og sveitarfélög eiga sér enga vörn. Það eru auðvitað sveitarfélögin um allt land sem eru að byggja þessar stúkur við knattspyrnuvellina. Íþróttafélög eiga fæst peninga til þess.

Skagamenn þurftu að því er mig minnir sæti fyrir 1100 manns í sinni stúku! Svo eru það innan við tuttugu leikir á ári sem verður að leika á aðalvellinum. Í mörgum tilvikum vilja menn frekar sitja í graspöllunum sem eru eitt helsta einkenni Akranesvallar. En menn áttu ekkert val!! Stúkan varð að taka ákveðinn fjölda í sæti ef Skagamenn vildu fá að keppa í efstu deild.

Þvílíkt rugl að einhverjir menn úti í Evrópu skuli ffá að ráða því hversu mörg sæti eru í stúku í Vestmannaeyjum eða á Akranesi. Þeir skilja ekki einu sinni hvað við erum fá!!

Það er líklega gott að Evrópusundsambandið er ekki svona stíft á sínum reglum því annars yrði lítið um sundiðkun víða á landinu.


mbl.is KSÍ: „Alrangt að byggja þurfi 700 manna stúku"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver skyldi hafa komið þessari frétt á framfæri?

Það kæmi ekki á óvart að starfsmenn forsetaframbjóðandans John McCain hefðu "látið vita" af þessu. McCain var hins vegar ekki með það á hreinu í sjónvarpsviðtali í vikunni hvað þau hjón ættu mörg hús en hann vissi að húsið sem Obama- fjölskyldan býr í í Chicago væri meira en milljón dollara virði. Það er alltaf spurning um sjá betur flísina í augum annarra en ekki bjálkann í eigin.

Auðvitað er þetta kosningabrella. Kannski sönn saga, ég veit ekki um það. En hitt veit ég að ömurlegar aðstæður fólks um allan heim batna pottþétt ekki nema repúblikanar flytji úr Hvíta húsinu. Það er bara hrikaleg tilhugsun fyrir okkur öll ef John McCain verður forseti Bandaríkjanna.

Í auglýsingu frá kosningaskrifstofu Barack Obama eru myndir af húsum McCain og í lokin kemur mynd af Hvíta húsinu og undir henni stendur: Þetta er hús sem bandaríska þjóðin hefur ekki efni á að John McCain búi í. undir það geta líklega flestir tekið.


mbl.is Bróðir Obama fátækur einsetumaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki við heldur

Ég óska FH-ingum til hamingju með frábæran árangur. Þeir takast á við Aston Villa eins og hvert annað verkefni. Svo er bara að fjölmenna og hvetja þá þegar Aston Villa kemur í Hafnarfjörðinn.

Það voru kaldar kveðjur sem leikmenn ÍA fengu frá fyrrum þjálfara sínum Guðjóni Þórðarsyni. Ég var ein af mörgum Skagamönnum sem efaðist um ágæti þess að fá Guðjón aftur. Arfaslakur árangur hans með liðið er staðfesting á þeim efasemdum. Ég reiknaði hins vegar aldrei með að Guðjón myndi tala um leikmenn ÍA með þeim hætti sem hann gerði í útvarpi KR-inga. Þau ummæli eru honum til ævarandi skammar. En þau skýra líklega betra en flest annað viðhorf hans til liðsins og þar með árangurinn. Svei attan.


mbl.is „Látum ekkert valta yfir okkur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Daglegar seinkanir

Ég get ekki orða bundist lengur. Það eru nánast daglegar fréttir af seinkunum hjá Iceland Express og ekki bara einhverjar mínútur eða klukkutími. Nei, farþegar bíða klukkustundum saman á flugvöllum eftir flugi. Og ekki fást neinar bætur fyrir.

Ég hef einu sinni lent í ofbókuðu flugi. Það var raunar með erlendu flugfélagi og það var bætt á staðnum. Ekkert vesen; afsökunarbeiðni þegar í stað. Hótel, matur og skaðabætur borgað orðalaust.

Auðvitað eru skýringar á öllu saman en það vekur óneitanlega athygli hversu algengt þetta er. Og líka hitt að nú heyrir til undantekninga að slíkt gerist hjá Icelandair. Enda velur maður að borga aðeins meira fyrir trúna á að komast á leiðarenda á tilskildum tíma. Það er bara þannig.


mbl.is Tafir hjá Iceland Express
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjörtur - alltaf flottur

Menn ættu ekki að vanmeta Hjört - hann er betri en enginn. Einn af mínum uppáhaldsfótboltamönnum. Verst að hann skuli ekki geta spilað með Skagamönnum. Okkur veitir ekki af góðum leikmönnum.

Hvað Skagamenn varðar held ég að menn verði að líta í eigin barm og skoða vel og vandlega hvar skóinn kreppir. Það vantar mikið upp á leikgleði og menn eru ekki að spila með hjartanu fyrir sitt félag. Af hverju er það ekki þannig? Spyr sá sem ekki veit. Ég hef auðvitað mínar skoðanir á því en þær skipta ekki máli. Er samt glöð að Skagamenn skuli farnir að tala við fjölmiðla. Tjáningafrelsið er komið í bæinn. 


mbl.is Sigmundur: „Við hlustum ekkert á Hjört“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Hrönn Ríkharðsdóttir
Hrönn Ríkharðsdóttir
Skagamaður af 54-módelinu, Arsenal-aðdáandi og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akranesi.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 55
  • Frá upphafi: 44757

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 53
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband