Saga um samstarf -- málefni aldraðra

Á málefnaskrá Samfylkingarinnar fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar var m.a. lagt til að Akraneskaupstaður semdi við ríkisvaldið um að taka yfir málefni aldraðra og fólks með fötlun. Flestir eru sammála því að þegar sveitarfélögin tóku við rekstri grunnskólans hafi þjónusta við nemendur og foreldra batnað. Skoðun okkar Samfylkingarfólks, og vafalaust fleiri, er að þjónusta við aldraða og fólk með fötlun yrði betri ef hún væri á okkar höndum.

Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga lögðu allir flokkar áherslu á að finna lausnir í málefnum aldraðra.  Sumir vildu byggja við Höfða en aðrir bentu á að skipulagsnefnd hefði unnið að deiliskipulagi á bókasafnsreit þar sem fyrirhugað var að byggja íbúðir fyrir aldraða. Ég var sjálf hlynnt þeirri hugmynd þótt ég styðji heilshugar uppbyggingu að Höfða. Staðsetningin á horni Heiðarbrautar, Háholts og Kirkjubrautar er að mínu mati frábær, stutt í banka, verslanir, heilsugæslu og apótek, en ekki síst vegna þess að íbúarnir yrðu sjáanlegir í bænum, mikilvægur hluti af bæjarlífinu.

Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir 2008 lagði minnihluti bæjarstjórnar enn til að skipulag á bókasafns- reit yrði tekið upp í eftirfarandi tillögu:

”Bæjarstjórn Akraness samþykkir að vinna að því að byggðar verði þjónustuíbúðir fyrir eldri borgara á svonefndum Bókasafnsreit og verði því verkefni flýtt sem kostur er. Uppbygging þess svæðis verði hluti af því að þétta byggð og efla gamla miðbæinn á Akranesi.”

Varla þarf að taka það fram að tillagan var felld. Við í minnihlutanum gerum okkur grein fyrir að þótt margir gætu nýtt sér þjónustuíbúðir, eins og þær sem getið var um hér að ofan, þá er þörf á fjölbreyttri þjónustu við aldraða. Við erum líka sannfærð um að slík þjónusta yrði best ef við sinntum henni sjálf hér í heimabyggð. Fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn lögðu til sumarið 2006 að skipaður yrði starfshópur sem færi í  viðræður við ríkisvaldið um yfirtöku á málefnum aldraðra en meirihlutinn hafnaði tillögunni, sagðist vera með betri lausnir í þessum málum. Þegar spurt var nánar um þær lausnir var fátt um svör.

Lausnin birtist svo, eins og þruma úr heiðskýru lofti, þegar þessi sami meirihluti gerði samning við Kalmansvík ehf. um sérstaka byggð fyrir 50 ára og eldri í Hausthúsahverfi. Bæjarfullltrúar minnihlutans voru alltaf á móti þessari hugmynd hvað sem líður fullyrðingum sumra bæjarfulltrúa meirihlutans að minnihlutinn hafi skipt um skoðun á miðri leið. Það er mikill misskilningur. Fulltrúar minnihlutans ásamt öllum viðstöddum fulltrúum meirihlutans staðfestu fundargerð bæjarráðs frá 7. des 2006. Flestir bæjarfulltrúar vita að þegar fundagerðir eru staðfestar þá er bæjarstjórn ekki að samþykkja efnislega það sem þar kemur fram. Einhverjir virðast þó ekki vera með þetta alveg á hreinu.

Í umræddri fundargerð var meðal annars bókun þar sem Soffíu Magnúsdóttur var heimilað að útfæra skipulagninu á allt að 7 hektara landi við Kalmansvík undir sérstaka íbúðabyggð fyrir 50 ára og eldri og því jafnframt lofað að bæjarráð myndi ekki úthluta umræddu landi á meðan. Soffía átti að skila tillögum innan árs. Svo birtist allt í einu, og algerlega upp úr þurru, samningur sem bæjarstjórinn er búinn að gera við fyrirtækið Kalmansvík og það gerbreytti stöðunni. Bæjarfulltrúar minnihlutans gátu, eftir nokkurt þref, knúið meirihluta bæjarráðs til að boða til sérstaks fundar bæjarstjórnar í sumar sem leið vegna þess að okkur ofbauð hvernig menn fóru með vald sitt. Á þeim fundi var samningurinn samþykktur með atkvæðum  meirihlutans gegn atkvæðum minnihluta. Óskir minnihlutans um að fá upplýsingar um samskipti bæjarstjóra (bæjaryfirvalda) og fyrirtækisins hafa verið hundsaðar. Sem betur fer lauk þessu máli farsællega þegar skipulags- og byggingarnefnd hafnaði tillögum Kalmansvíkur efh að skipulagi á svæðinu.

Við bíðum spennt eftir því hvað gerist næst á vettvangi bæjarmála. Eitt er víst að minnihlutinn fær ekki að vita það fyrr en eftir að ákvörðun hefur verið tekin.

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Hrönn Ríkharðsdóttir
Hrönn Ríkharðsdóttir
Skagamaður af 54-módelinu, Arsenal-aðdáandi og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akranesi.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 88
  • Frá upphafi: 44880

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 87
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband