Færsluflokkur: Bloggar
16.1.2008 | 22:32
Forgangsröð og lýðræði
Það eru um margt skemmtilegar umræður sem fara fram á vef Akraneskaupstaðar. Í umræðu um Akraneshöllina sagði Guðmundur Jónsson (sem ég kann ekki frekari skil á) meðal annars:
"Hinsvegar er sjálfsagt að íbúar skiptist á skoðunum um forgangsröðun mála hér í bæ og þá er ekki nema eðlilegt að skiptar skoðanir séu á málum. Mér finnst núverandi meirihluti ekki trúverðugur og að lesa síðustu fundargerð bæjarráðs er bara sorglegt dæmi um stjórnunarhætti þessa fólks. Minnihlutinn vildi fá fulltrúa sína til setu á bæjarráðsfundum og meirhlutinn fellir það vegna kostnaðar sem ekki var hægt að réttlæta. Síðan kemur önnur tillaga þar sem lagt er til að bæjarfulltrúar minnihlutans sitji sem áheyrnarfulltrúar án greiðslu og þá er sú tillaga líka felld. Heldur þetta fólk sem hér heldur um stjórnartaumana að fólk sé almennt algjörir aular !! Ef maður nennir að lesa í gegnum fundargerðir bæjarstjórnar og bæjarráðs sér maður verklagið og það verður ekki merkilegur minnisvarði um suma bæjarfulltrúana í meirihlutanum. Vona bara að Skagamenn bresti ekki minnið þegar kemur að næstu kosningum."
Ég er ein þeirra bæjarbúa sem ekki var hlynnt byggingu Akraneshallarinnar. Yfirbyggð sundlaug kom á undan í forgangsröðinni en ég þurfti ekki að taka þessa ákvörðun á sínum tíma. Ég studdi hins vegar byggingu sundlaugar við afgreiðslu fjárhagsáætlunar í desember 2007 af því að ég tel hana nauðsynlega framkvæmd. Minnihlutinn hefði viljað seinka framkvæmdum aðeins til að draga úr lántökum en sú tillaga var felld.
Ég var líka þeirrar skoðunar að bókasafn ætti að vera á undan tónlistarskóla í framkvæmdaröðinni. Það þýðir ekki að ég sé á móti tónlistarskólanum eins og reynt er að halda fram af bæjarfulltrúum meirihlutans. Bæjarfulltrúar minnihlutans geta að sjálfsögðu glaðst með starfsfólki tónlistarskólans yfir nýju húsnæði en okkur fannst og finnst enn að salurinn hafi verið alltof dýru verði keyptur. En hvað bókasafnið varðar þá vissi ég bara sem formaður Menningarmála- og safnanefndar Akraness að bókasafnið er í algerlega ónýtu húsnæði þar sem allar eðlilegar öryggisaðgerðir skorti. Rafmagni slær út í húsinu vegna þess að raki / vatn kemst að lögnum, eldvarnir eru engar og svo mætti lengi telja.
Eftir alla umræðuna og orrahríðina um tónlistarskóla eða bókasafn verð ég að viðurkenna að mér varð orðavant þegar ég frétti út í bæ að búið væri að ákveða að kaupa hinn endann á verslunarmiðstöðinni á Skagaversreitnum undir bókasafn. Núna var það allt í einu bráðnauðsynlegt að koma bókasafninu í nýtt húsnæði. Hvað hafði eiginlega breyst? Einn bæjarfulltrúi meirihlutans sagði á bæjarstjórnarfundi fyrir ári að hún væri stolt af því að tilheyra þeim hópi fólks sem forðaði því að bókasafnið væri flutt úr núverandi fallegu húsnæði. Vá, maður. Og það er ekki árið liðið! En ég hef nú sagt að það sé eðlileg skýring á þessu öllu saman. Það sé lykilatriði í málinu að tónlistarskólinn sé hægra megin í húsinu og bókasafnið vinstra megin. Það er að minnsta kosti jafngóð skýring og hver önnur.
Mér hefur áður verið tíðrætt um lýðræði og aðeins meira um það vegna þess að meirihlutinn gengur fram með miklum valdhroka og nýtir meirihlutaafl sitt við hvert tækifæri. Ég minni Akurnesinga á þá staðreynd að núverandi meirihluti Sjálfstæðismanna og óháðra situr með minnihluta atkvæða bæjarbúa á bak við sig. Meirihlutaflokkarnir tveir fengu 46,3% atkvæða (1571 atkv.) en minnihluta-flokkarnir þrír fengu 50,9% (1729 atkv). Meirihlutinn núverandi boðaði opna og gagnsæja stjórnsýslu fyrir kosningarnar en það entist ekki nema í viku eftir kosningar.
Ég vona eins og Guðmundur að Skagamenn bresti ekki minnið þegar kemur að næstu kosningum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2008 | 23:37
Að svara spurningnum!
Dásamlegt viðtalið við forseta bæjarstjórnar í kvöldfréttum. Hann talar um að selja hlut Akraneskaupstaðar í Orkuveitunni af því að spurningum bæjarins er ekki svarað af hálfu fyrirtækisins.
Það er kannski ástæða til að rifja upp að minnihluti bæjarstjórnar beindi einni eða tveimur spurningum til bæjarstjórans í ágústlok og hann hefur ekki svarað þeim enn þótt hann hafi verið minntur á fyrirspurnina. Til að menn séu sjálfum sér örlítið samkvæmir væri kannski eðlilegt að gefa stjórnendum Orkuveitunnar jafnlangan tíma á hverja spurningu, þ.e. fimm mánuði á hverjar tvær spurningar. Það aftur á móti þýðir að þeir þurfa ekki að svara Akraneskaupstað fyrr en í árslok 2008!
Maður, líttu þér nær.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.1.2008 | 20:17
Saga um samstarf kafli 2
Sæl öll.
Þessi kafli fjallar um lýðræði og aðeins um opna stjórnsýslu.
Í bæjarráði Akraness sitja þrír kjörnir fulltrúar fyrir þrjá flokka af þeim fimm sem fulltrúa eiga í bæjarstjórn. Meirihlutinn á tvo fulltrúa og minnihlutinn einn. Minnihlutaflokkarnir hafa komið sér saman um að skipta kjörnum fulltrúa á milli sín eitt ár í senn, hinir tveir eiga því ekki fulltrúa í bæjarráði á meðan bæjarstjórn starfar. Samkvæmt bæjarmálasamþykkt Akraneskaupstaðar eiga svo allir flokkarnir fulltrúa á meðan bæjarstjórn er í sumarleyfi. Minnihlutinn hefur nokkrum sinnum lagt fram tillögu um að þeir flokkar sem ekki eiga kjörinn fulltrúa fái að tilnefna áheyrnarfulltrúa sem sitji alla fundi bæjarráðs árið um kring. Því hefur jafnóðum verið hafnað af meirihluta bæjarráðs og bæjarstjórnar. Ástæðan fyrir þessum tillögum okkar er að á vettvangi bæjarráðs eru allar meiriháttar ákvarðanir í málefnum bæjarins teknar og okkur finnst skipta máli að allir flokkar hafi tækifæri til að tjá sig um mál í upphafi umræðu og geti haft áhrif á hvernig mál þróast.
Okkur sem sitjum í bæjarstjórn fyrir minnihlutann finnst þetta sjálfsagt og eðlilegt. Það eigi að vera öllum kappsmál að þeir sem eiga að taka ákvarðanir um bæjarmál viti málatilbúnað frá upphafi. Við stóðum líka í þeirri trú að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins væru á sama máli en á síðasta fundi bæjarstjórnar ( 6. júní 2006) á liðnu kjörtímabili lögðu þáverandi fulltrúar Sjálfstæðisflokks fram eftirfarandi tillögu sem var samþykkt:
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að fela bæjarritara að aðlaga kjör bæjarfulltrúa og nefndarmanna Akraneskaupstaðar að kjörum sambærilegra fulltrúa í Borgarbyggð:II. Launakjör bæjarfulltrúa og nefndarmanna hjá Akraneskaupstað eftir 01. júlí n.k.
1. Laun bæjarstjórnar og bæjarráðs verða reiknuð sem hlutfall af þingfararkaupi alþingismanna þannig:
a) | Bæjarfulltrúi | 16,5% á mánuði |
b) | Varamenn í bæjarstjórn | 5,5% á fund |
c) | Fulltrúi í bæjarráði | 19,5% á mánuði |
d) | Varamenn í bæjarráði | 5,5% á fund |
e) | Forseti bæjarstjórnar | 25,0% á mánuði |
f) | Formaður bæjarráðs | 24,5% á mánuði |
g) | Áheyrarfulltrúi í bæjarráði | 19,5% á mánuði |
Hér er mikilvægt að gera sér grein fyrir að tillagan er lögð fram og samþykkt 6. júní 2006, þ.e. eftir að kosningar höfðu farið fram og ljóst að ekki myndu allir flokkar eiga kjörinn fulltrúa í bæjarráði. Þegar málið var afgreitt í bæjarráði var hins vegar búið að breyta samþykktinni þannig að g-liður var felldur út og þannig fór hún í gegn. Nú skal þess einnig getið að áheyrnarfulltrúarnir sem sitja yfir sumarið fá ekki greitt samkvæmt þessari tillögu heldur því þeir fá greitt fyrir hvern setinn fund heldur fá þeir greitt eins og þeir séu varamenn í bæjarráði. Ekki veit ég alveg hvernig menn fá það út en það er annað mál.
Reglur um greiðslu launa hjá Akraneskaupstað fyrir setu í nefndum má í heild sinni sjá á slóðinni
http://www.akranes.is/Default.asp?Sid_Id=4666&tre_rod=001|008|&tid=7&GRS_ID=627
Meirihluti bæjarstjórnar tók sem sagt ákvörðun um að breyta samþykkt bæjarstjórnar og hafa að engu eigin tillögu. Mikil lýðræðisást það.
Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2008 var enn lögð fram tillaga sama efnis og hafnað á fundi bæjarstjórnar 8. janúar 2008 með þeim rökum um kostnað sem væri henni samfara og einnig að minnihlutinn sæti þá með fleiri fulltrúa. Hið síðara er út af fyrir sig kannski skiljanleg afstaða en gæta verður þess að meirihlutinn hefur auðvitað alltaf fleiri atkvæði.
Kostnaðarauki yrði um kr.4,0 milljónir þar að auki sæti minnihluti með fleiri fulltrúa í bæjarráði en meirihlutinn. Visað er til ákvæðis í bæjarmálasamþykkt þar sem minnihluti á fulltrúa í bæjarráði á meðan sumarfríi bæjarstjórnar stendur.
Enn var samt gerð tilraun til að auka lýðræðið í bæjarfélaginu og lagt til að áheyrnarfulltrúarnir mættu sitja og hlýða á fundi bæjarráðs án þess að fá greitt fyrir fundarsetuna. Því var líka hafnað á fundi bæjarráðs 10. janúar 2008:
"Meirihluti bæjarráð getur ekki orðið við tillögunni, enda fái bæjarfulltrúar allir sömu gögn og sama aðgang að starfsmönnum bæjarins og niðurstaða bæjarráðs liggur fyrir strax daginn eftir fund."
Svona er nú lýðræðisástin mikil. Þetta er fólkið sem vildi opna og gagnsæja stjórnsýslu fyrir kosningar. Þetta er fólkið sem vildi ekki "korteri fyrir kosningar" lausnir. Ég veit það svei mér ekki. Ég held að það sé skárra en tillögur og lausnir sem endast ekki nema viku eftir kosningar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2008 | 11:16
Saga um samstarf kafli 1.
Þetta er fyrsta færslan mín. Ég hélt að ég myndi aldrei opna blogg-síðu en eftir bæjarstjórnarfund síðastliðinn þriðjudag varð mér ljóst að ég gæti ekki lengur þagað yfir ofríki meirihluta bæjarstjórnar sem hefur ekki áhuga á samstarfi við minnihlutann eða bæjarbúa almennt um neitt nema eigin hugmyndir.
Kannski þarfnast þetta frekari skýringar því málið á sér lengri sögu. Dropinn sem fyllti mælinn var að allar tillögur sem minnihlutinn lagði til við afgreiðslu fjárhagsáætlunar í desember voru felldar í einu lagi og nánast orðalaust af meirihluta bæjarráðs. Samt var þeim öllum vísað til bæjarráðs með þeim orðum forseta að þar væri að finna margar góðar hugmyndir sem vert væri að skoða frekar.
Í upphafi fyrsta bæjarstjórnarfundar ársins 2008 bauð forseti bæjarfulltrúa velkomna, óskaði þeim gleðilegs árs og óskaði jafnframt eftir góðu samstarfi á nýju ári. Að fundarsetningu lokinni var tekið til við dagskrá fundarins. Meðal annars lá fyrir fundargerð bæjarráðs frá 3. janúar s.l. þar sem fram kom að tillögum minnihlutans hefði verið hafnað. Bæjarfulltrúar minnihluta óskuðu þá eftir að tillögurnar yrðu bornar undir atkvæði á bæjarstjórnarfundinum. Bæjarfulltrúar meirihlutans endurtóku leikinn og felldu þær aftur. Þetta er í hnotskurn það sem meirihlutinn kallar samstarf.
Hér verða á næstu dögum birtar nokkrar af fyrrnefndum tillögum minnihlutans, áhugasömum lesendum til glöggvunar. Fyrst er það tillaga um kjaramál, afgreiðslan og rökstuðningur meirihlutans fyrir því að hafna henni.
Kjaramál
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að þeir starfsmenn bæjarins sem eru í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar taki laun samkvæmt kjarasamningum félagsins. Ennfremur verði kjör launþega sem tilheyra öðrum stéttarfélögum endurskoðuð með tilliti til launa í nágrannasveitarfélögum.
Greinargerð
Það er ljóst að kjör starfsmanna nágrannasveitarfélaganna hafa breyst á síðustu mánuðum. Framundan eru kjaraviðræður og til þess að þær megi ganga vel þarf að leiðrétta hlut þessara launþega áður en til kjarasamninganna kemur.
Tillagan felld 5:4. Á móti GS, KJ, HH, ÞÞÞ, EA. Með SK, RH, HR, GPJ.
Meirihluti bæjarstjórnar óskar að eftirfarandi sé bókað sem skýring við höfnun tillögunnar:
Ekki hefur farið fram úttekt á kostnaði sem fylgir þessari tillögu en ljóst er að hann getur haft í för með sér gífurleg útgjöld sem ekki er gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2008. Í gildi eru kjarasamningar sem ekki verður breytt nema með aðkomu Launanefndar sveitarfélaga. Nýir kjarasamningar fara fram á komandi hausti í okt/nóv. Hlutur þeirra lægst launuðu hjá Akraneskaupstað hefur verið bættur eins og kveðið var á um í málefnasamningi.
Fjárhagsáætlun kaupstaðarins er bólgin svo notuð séu orð bæjarstjórans. Fyrir dyrum standa framkvæmdir upp á hundruði milljóna. Meirihluti bæjarstjórnar hefur ákaft varið framkvæmdir síðasta árs í heild og ekki síður framúrakstur við einstaka verk. Menn tala um að gera verði kröfur um ýtrustu gæði. Í því samhengi skipta milljónirnar ekki máli, en þegar kemur að því að borga starfsmönnum sveitarfélagsins laun sem standast samanburð við launakjör á höfuðborgarsvæðinu, þá heitir það "gífurleg útgjöld".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 34
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 32
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Af mbl.is
Erlent
- Finnair aflýsir 300 flugferðum vegna verkfalla
- Pútín reynir allt til að forðast aðra herkvaðningu
- Fimm flugfélög sektuð fyrir óboðlega framkomu
- Útnefnir vogunarsjóðsstjóra í fjármálaráðuneytið
- Munu hefja fjöldaframleiðslu á eldflaugunum
- Tillaga Trumps um frið í Úkraínu ekki algalin
- McGregor sekur: Borgar um 36 milljónir í skaðabætur