Arsenal till I die

Það fór um mig ánægjutilfinning þegar dómarinn flautaði til leiksloka í Mílanó í gærkvöldi. Mínir menn bara miklu betri og áttu skilið að vinna.

Ég var nú samt oggulítið stressuð á tímabili þegar menn skutu fram hjá í dauðafærum...víti sleppt þegar Hleb var felldur og hann fékk gult í staðinn...en það er spurning að halda út í 90 mínútur. Það hefur stundum klikkað hjá okkur, gerðist ekki í gær.

..................ég keypti mér barmmerki á Highbury fyrir margt löngu. Er ákaflega stolt af því en þar stendur...Arsenal till I die.


mbl.is Fabregas: Arsenal getur unnið tvöfalt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besta kjúklingasúpa í heimi

Ég gleymi því aldrei þegar ég fór með vinum mínum á gamla Ask fyrir einhverjum þrjátíu árum og þar hittum við fyrir fullorðinn mann sem var vel við skál. Hann forvitnaðist um það sem við vorum að borða og sagði svo við vin minn að sósan sem væri með kjötinu hans væri næstbesta sósa í heimi. Ekki vildi hann segja okkur hver eða hvernig besta sósan væri.

Minnug þessa ætla ég að setja hér inn uppskrift að kjúklingasúpu sem er besta kjúklingasúpa í heimi. Skora á hvern þann sem getur toppað hana (og verður hún þá næstbesta kjúklingasúpa í heimi). Ég fékk þessa uppskrift frá Einari Viðarssyni, samkennara mínum. Takk, takk.

 

Kjúklingasúpa fyrir 10  - 12

3-4 msk olía, 1,5 msk karrý, 1/2 - 1 hvítlaukur - marinn, 1 púrrulaukur, 3 paprikur (ein af hverjum lit) ---þetta er allt steikt saman í potti  en best er að svissa karrý og hvítlauk áður en hinu er bætt út í. 

1 dós rjómaostur, 1 flaska Heinz chilisósa (verður að vera Heinz), 1 grænmetisteningur, 3 súputeningar, 1/2 lítri rjómi, 1,5 - 2 lítrar vatn, salt og pipar.

Þessu er blandað út í pottinn og látið malla í góðan tíma. Að lokum er bætt í pottinn 6-8 kjúklingabringum sem skornar hafa verið í bita, steiktar og kryddaðar vel.

Gott að hafa hvítlauksbrauð eða annað gott brauð með. Einföld uppskrift að gerbrauði er í hlutföllum svona:

1 bolli hveiti, 1 tsk ger, 1 msk olía og 1 dl volgt vatn, smá salt og örlítill sykur (má sleppa).

Öllu blandað saman í hrærivélarskál og hnoðað. Látið hefast í ca 20-30 mínútur. Þá er deigið slegið niður og búið til það sem hver vill. Hiti í ofninum fer eftir því hvað er bakað. Brauð eru bökuð við 180-200° C en snúðar eða bollur við hærri hita (225°C). Maður finnur á lyktinni þegar brauðið er tilbúið. Ég slæ alltaf í botninn á brauðinu til að gá hvort það er fullbakað, það kemur holt hljóð ef brauðið er tilbúið.

Þessa uppskrift má margfalda og nota í hvað sem er. Ég nota hana tvöfalda í brauð með kvöldmatnum eða kjúklingasúpunni, þrefalda í pizzubotn. Fjórföld er hún fín í snúða og horn. Bragðefni geta verið eftir óskum hvers og eins. Ostur, olífur eða krydd er tilvalið og um að gera að prófa sig áfram.


Bæjarstjórn Akraness

Það voru heilmikil átök á síðasta bæjarstjórnarfundi. Tvö mál vöktu þá mesta umræðu en fleiri athygliverð mál á dagskrá.

Leikskólinn

Annað málið var um ráðningu leikskólastjóra og matráðs á nýjan leikskóla við Ketilsflöt. Minnihlutinn óskaði eftir skýringu á rangri bókun í bæjarráði þar sem meirihlutinn bókaði að stöðurnar hefðu verið auglýstar. Það er rangt. Enginn bæjarfulltrúi minnihluta efast um hæfni þeirra einstaklinga sem eru ráðnir. Málið snýst um eðlilega stjórnsýslu. Lögfræðiálit bendir til að þessi málmeðferð (að auglýsa ekki) sé lögleg, en hún er ekki skynsamleg. Ég gerði athugasemd við hvernig að málinu var staðið en samþykkti ráðninguna sem slíka. Í mínum huga er munur þarna á, en svo kann að vera að einhverjir séu mér ósammála og telja að ég hefði átt að sitja hjá eða greiða atkvæði gegn ráðningunum.

 

Útboð á vegum bæjarins

Hitt málið var umfjöllun um útboðsmál og gögn sem fylgja (eða fylgja ekki) þegar tilboð eru send í verk á vegum bæjarins. Mig langar að geta verklags sem ég tók þátt í á vettvangi bæjarráðs síðastliðið sumar þegar bæjarráð fundaði þrisvar sinnum með mjög stuttu millibili vegna útboðs um rekstur Gámu. Bæjarfulltrúar töldu að frekari gagna væri þörf áður en ákvörðun væri tekin og starfsmenn bæjarins fengu það hlutverk að afla þeirra. Það var gert og bæjarráð fór yfir það sem fyrir lá. Þá vöknuðu spurningar um lögmæti og ákveðið var að fá álit lögfræðings. Þegar öll þessi gögn öll lágu fyrir tók bæjarráð ákvörðun. Þess ber sérstaklega að geta að frá upphafi lá fyrir tillaga frá sviððstjóra Umhverfis- og tæknisviðs um hvaða tilboði ætti að taka.

Í gögnum fyrir bæjarstjórnarfund síðastliðinn þriðjudag kom fram hvaða gögn skyldu liggja fyrir áður en til samninga væri gengið við lægstbjóðanda í leikskólann við Ketilsflöt. Þetta kom ekki fram varðandi vinnu við Skógarhverfið en minnihlutinn taldi eðlilegt að sambærilega væri að málum staðið. Vísað var til þess máls sem getið var að ofan þar sem sérstakleg var vandað til verka og faglega unnið. Tillaga um að málum væri vísað aftur inn í bæjarráð á meðan gagna væri aflað vakti mikla reiði meðal bæjarfullrúa meirihlutans. Það er mér hulin ráðgáta. Menn setja dæmið þannig upp að verið sé að gagnrýna störf starfsmanna bæjarins. Það er bara ekki rétt. Gagnrýnin beindist að verkum bæjarfulltrúa meirihlutans. En einhvern veginn færa menn ábyrgðina yfir á starfsmenn bæjarins en axla hana ekki sjálfir. Bæjarfulltrúar minnilhutans bera fullt traust til starfsmanna bæjarins en eitt skal yfir alla ganga. Það er réttmæt stjórnsýsla og bæjarbúar verða að geta treyst því að svo sé.

 

Meirihlutinn felldi eigin tillögu

Í málefnasamningi núverandi meirihluta er kveðið á um að gerð skuli stjórnsýsluúttekt á rekstri bæjarins. Í ljósi þess að bæjarfulltrúum minnihlutans hefur stundum fundist vanta nokkuð upp á að meirihlutinn ástundi rétta eða vandaða stjórnsýslu var á síðasta fundi bæjarstjórnar lögð fram tillaga um að slík stjórnsýsluúttekt yrði gerð á rekstri Akraneskaupstaðar og stjórnun bæjarins bætt við af gefnu tilefni.  Til að gera langa sögu stutta þá felldi meirihlutinn tillöguna sem eins og áður sagði var tekin úr þeirra eigin málefnasamningi.


MBL - Trúverðugur fjölmiðill? 9% treysta borgarstjórn!

Ég hef ekki skrifað neitt í þessari viku, legið í dvala, ef svo má segja. Aðeins sett athugasemdir við nokkrar fréttir mbl.is en þar með er sagan búin. Lofa bót og betrun í næstu viku.

Ég var hugsi þegar ég las frétt í Morgunblaðinu í dag þess efnis að 90% aðspurðra í þjóðarpúlsi Gallup treystu Háskóla Íslands. Það var sem sagt fyrirsögnin. Í millifyrirsögn sagði að 42% treystu Alþingi. Gott mál. En það sem vekur athygli er að Morgunblaðið  víkur sér markvisst undan því að nefna að eingöngu 9% aðspurðra treystir borgarstjórn. Það hefur komið fram í öðrum fjölmiðlum síðustu daga og þögn Morgunblaðsins er hrópandi. Er það trúverðugur fjölmiðill sem segir ekki alla fréttina, velur það sem hentar og getur hins í engu? Ég segi nei.


Réttur maður!

Jón Gunnlaugsson er réttur maður í þetta starf. Hann hefur unnið óeigingjarnt starf í þágu knattspyrnunnar á Akranesi og síðar landinu öllu í störfum sínum fyrir KSÍ. Þetta er verðskuldað og Jón mun vinna af fagmennsku og dugnaði eins og honum er einum lagið.

Svo því sé líka haldið til haga þá hefur Jón í langan tíma safnað heimildum um allt sem viðkemur fóltboltanum hér á Skaga og að því er ég best veit á landsvísu einnig. Hann er hafsjór af fróðleik og einlægur kanntspyrnuunnandi.

Til hamingju Jón.


mbl.is Jón tekur við formennsku í landsliðsnefnd karla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ásetningur?

Það er endalaust hægt að velta vöngum um hvað leikmenn ætla sér þegar þeir fara í tæklingu eins og þá sem Taylor fór í gegn Eduardo. Þetta er náttúrulega glórulaust. Heimir, Guðni, Hermann og Gylfi Orra ræddu þetta mál nokkuð ýtarlega í kvöld. Menn spyrja meðal annars um ásetning. Ég er sammála Hermanni og Gylfa að auðvitað fór Taylor með ásetningi í tæklinguna en hann ætlaði vitaskuld ekki að stórslasa Eduardo. Hann gerði það engu að síður vegna þess hvernig tæklingin var.

Er hægt að koma í veg fyrir svona slys í fótbolta? Bæði Gylfi Orra og Hermann voru þeirrar skoðunar að það væri mögulegt með því að reka menn snarlega út af í hvert sinn sem þeir fara með sólann í tæklingu gegn andstæðingi. Það þurfi ekki meiðsl til. Þannig myndu menn læra (að minnsta kosti flestir).

Mínir menn voru bara miklu betri og áttu meira en skilið að vinna þennan leik. Vítið var alger gjöf, grátlegt. Leikmenn Arsenal höfðu náð að halda haus eftir slysið í upphafi leiks en augnabliksmistök kostuðu síðan sigurinn. Svona er þetta stundum. Trúi því samt að við verðum meistarar í vor.


mbl.is Eduardo fótbrotnaði - Birmingham jafnaði í lokin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég líka

 

Ég fékk líka svona símtal og það gekk nákvæmlega eins fyrir sig og þú lýsir. Ég hef áður lent í þessu og féll fyrir plottinu. Núna var vísað í það dæmi og sagt að ég hefði skráð mig fyrir nokkru síðan og karlinn sem hringdi í mig (konan kom seinna) sagði að þeir væru að fylgja eftir gömlum skráningum. Konan sem ég talaði við var mjög undrandi á því að ég vildi hafa samráð við manninn minn, lét þess samt getið að hún þekkti margar konur sem treystu sér ekki til að taka ákvarðanir. En þar sem ég var nú kona með reynslu þá langaði mig, eins og þig, að komast að því hvað þau myndu ganga langt og okkar símtali lauk með því að hún skellti á mig.

Hins vegar veit ég um fólk sem fékk sambærilegt tilboð og fór í alveg magnaða ferð þar sem allt stóð eins og stafur á bók. Það getur verið erfitt að greina á milli.


mbl.is ,,Allt leit mjög vel út"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svei mér þá...

...og ég sem hélt að kallinn væri steindauður. Maðurinn  hefur svo lítinn kjörþokka að það er með öllu óskiljanlegt að hann skuli yfir höfuð koma til greina í þetta starf hvað þá að hann sé á leið með að verða forsetaefni republikana..............hafa menn virkilega ekki neinn skárri?

 


mbl.is McCain sver af sé ástarsamband
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott hjá Aroni

Það var erfitt að segja nei að sögn Arons. Ég skil það. Í augum flestra er það takmark í sjálfu sér að vera beðin/n um að taka að sér landsliðið í sinni íþróttagrein. En það er líka erfitt að vera númer fjögur í röðinni og allir hinir búnir að segja nei. Er ekki eitthvað að aðferðafræðinni sem stjórn HSÍ valdi að nota í þessu máli?


mbl.is Aron Kristjánsson: Erfiðasta nei sem ég hef þurft að segja á ævinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um opna stjórnsýslu

 Undir lok síðasta kjörtímabils tók þáverandi meirihluti Samfylkingar og Framsóknarflokks ákvörðun um að kaupa nýtt húsnæði fyrir bókasafnið. Ákvörðunin var tekin án samráðs við fulltrúa minnihlutans en hún byggði á sameiginlegum niðurstöðum vinnuhóps sem skipaður var fulltrúum allra flokka. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks sem voru í minnihluta bókuðu m.a. að það væri lágmarkskurteisi að kynna málið fyrir þeim. Ég er sammála því og hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að það hafi verið mistök að vinna ekki svona stórt mál í samvinnu allra bæjarfulltrúa. Þessi kaup urðu enda eitt aðalmálið í kosningabaráttu sem síðan fór í hönd þetta vor en þá lögðu Sjálfstæðismenn ofuráherslu á opna stjórnsýslu í stað pukurs. Það er ástæða til að rifja málið upp reglulega því að Sjálfstæðismenn komust í meirihluta eftir kosningarnar 2006 með frjálslyndum (eða óháðum eftir því hvernig litið er á málið) og hafa aldeilis ekki farið eftir því sem þeir gagnrýndu svo mjög áður. Aldrei hefur pukrið verið meira og skulu bara nefnd örfá dæmi. 

Tónlistarskólinn

Starfshópur skilaði þarfagreiningu fyrir Tónlistarskólann. Sú greining hefur aldrei verið birt. Framkvæmdanefnd mannvirkja bókaði um kostnaðaráætlun við innréttingar í tónlistarskólanum í október 2006. Áætlunin var aldrei birt og tilvist hennar neitað. Endanlegt uppgjör vegna tónlistarskólans hefur heldur ekki verið birt en framkvæmdanefndin gerði athugasemdir við fjölmörg verk sem unnin voru í heimildarleysi.  

Bókasafn

Í bakherbergjum núverandi meirihluta var skyndilega og fyrirvaralaust tekin ákvörðun um að kaupa húsnæði undir bókasafn. Ekkert samráð, engin kynning en fulltrúar minnihlutans sannfærðir sem fyrr að lífsnauðsynlegt væri að flytja starfsemi bókasafnsins og studdu málið.  

Leik- og grunnskólar

Skýrsla, sem var unnin um húsnæðismál grunn- og leikskóla, varð fyrirvaralaust úrelt og tillögurnar einnig. Ákveðið var að byggja nýjan grunnskóla án þess að málið væri rætt í skólanefnd, hvað þá annars staðar. Ekki bent á neinar lausnir á húsnæðisvanda grunnskólanna sem þegar er staðreynd. Samtímis er ákveðið fyrirvaralaust án nokkurrar umræðu samþykkt að flytja Skátasel, starfsmenn og börn á nýjan leikskóla við Ketilsflöt. Sögusagnir um að ráðinn verði leikskólastjóri án auglýsingar væntanlega úr lausu lofti gripnar en það kemur bara í ljós. 

Áheyrnarfulltrúar og málsvari frjálslyndra

Ekki þora fulltrúar meirihlutans í bæjarráði að hafa áheyrnarfulltrúa sem eru tilbúnir að hlusta kauplaust á umræðu þeirra sem völdin hafa. Formaður bæjarráðs segir aldrei neitt á fundum bæjarstjórnar svo ekki vita Akurnesingar mikið hvað henni finnst um málefni sem koma til afgreiðslu á þeim vettvangi. Formaðurinn tjáir sig bara á lokuðum fundum þar sem gengið er út frá því að trúnaður ríki. Það er hins vegar lærdómsríkt að glugga í gögn sem frjálslyndir gáfu út fyrir kosningar. Þar er t.d. að finna hugmynd formanns bæjarráðs að byggð fyrir 50 ára og eldri í Kalmansvík sem skýrir hvers vegna bæjarráð tók á móti Soffíu Magnúsdóttur til að afhenda henni 7 hektara lands í Hausthúsahverfi án þess að kynna það eða ræða fyrirfram.

 Hér hefur einungis verið minnst á nokkur mál en af mörgu er að taka. Sumir bæjarfulltrúar meirihlutans virðast eigin fangar í vef pukurs og leyndar þar sem hagsmunir heildarinnar eru ekki hafðir að leiðarljósi. Stjórnunarhættir núverandi meirihluta eiga ekkert skylt við opna stjórnsýslu, svo mikið er víst.  

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Hrönn Ríkharðsdóttir
Hrönn Ríkharðsdóttir
Skagamaður af 54-módelinu, Arsenal-aðdáandi og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akranesi.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband