15.5.2008 | 21:45
Frjálslyndir!
Skagamenn hafa fengið nýjan meirihluta ef svo má segja. Karen og Gísli eru gengin í Sjálfstæðisflokkinn sem hefur þá fimm bæjarfulltrúa, pólítískan bæjarstjóra og hreinan meirihluta. Í sjálfu sér ekki mikil breyting fyrir bæjarbúa. Karen hefur gefið þá skýringu að Magnús Þór Hafsteinsson hafi stillt henni upp við vegg og hún hafi ekki átt annarra kosta völ. Gísli gekk í Sjálfstæðisflokkinn af því að samstarfið við Gunnar og Karen hefur gengið svo vel en hann ætlar að vera jafnaðarmaður áfram. Gott hjá honum.
Magnús er mjög óhress með þessa ákvörðun Karenar og kallar hana valdarán. Hún hafi farið með umboð kjósenda Frjálslynda flokksins og eigi ekkert með að afhenda það umboð Sjálfstæðisflokknum á Akranesi. Þessu eru mjög margir sammála og líklega skynsamlegt að setja einhvers konar löggjöf sem kemur í veg fyrir að sveitarstjórnamenn eða alþingismenn skipti um skipspláss í miðjum túr. Það vekur hins vegar furðu að Magnús Þór skuli bregðast svona við. Mig minnir að Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður og Valdimar Friðriksson, varaþingmaður hafi báðir sagt sig úr sínum flokkum til að ganga til liðs við Frjálslynda við lok síðasta kjörtímabils. Ég man ekki betur en Magnús og félagar hafi fagnað þeim innilega. Það gilda líklega ekki sömu reglur um alla...
Magnús hefur undanfarið tjáð þá skoðun að Akraneskaupstaður geti ekki tekið við flóttamönnum. Hann gefur þær skýringar að aðdragandi sé stuttur, lítið svigrúm til undirbúnings, mikla óvissu í málinu og síðast en ekki síst horfurnar í bæjarfélaginu. Hann spyr líka spurninga sem vissulega eiga rétt á sér eins og um atvinnumál, húsnæðismál, heilsugæslu og þjónustu leik- og grunnskóla. Auðvitað verður að fara í mikla undirbúningsvinnu og skoða rækilega einmitt þessa þætti sem Magnús nefnir. Lausnirnar blasa kannski ekki við en við eigum að geta fundið skynsamlegar lausnir.
Magnús nefnir líka að kreppunnar sé farið að gæta á Akranesi. Það er gott að hann er vaknaður því hingað til hefur hann sofið á verðinum ef þetta er skoðun hans. Kreppan kom nefnilega ekki í síðustu viku. Hann hefur átt aðild að meirihluta bæjarstjórnar undanfarin tvö ár og á bæjarstjórnarfundi fyrir skömmu sagðist hann alsæll í meirihlutanum. Hann hefur ekki hingað til minnst á kreppu eða þrengingar í bæjarbúskapnum. Minnihluti bæjarstjórnar hefur lagt fram allnokkrar tillögur sem lúta að því að lækka framfærslukostnað barnafjölskyldna á Akranesi. Þær hafa allar verið felldar. Ég hef ekki sérstaklega orðið þess vör að Magnús legði þeim lið hvorki í ræðu né riti.
Þegar virðisaukaskattur á matvæli var lækkaður lögðu bæjarfulltrúar minnihlutans til að einingaverð í mötuneytum grunn- og leikskóla bæjarins yrði lækkað. Því var vísað inn í bæjarráð þar sem það var á endanum fellt. Það hefur líka verið lagt til ítrekað að lækka dvalargjöld á leikskólum og í skóladagvistum grunnskólanna. Þegar foreldrar leikskólabarna skrifuðu bæjaryfirvöldum kallaði Magnús þá dóna. Hann átti ekki orð yfir frekjuna og framkomuna!
Akraneskaupstaður leggur umtalsvert minna í beina styrki til foreldra vegna tómstundastarfs barna og unglinga. Það eru 5000 krónur á ári fyrir hvert barn og hefur upphæðin verið óbreytt síðastliðin þrjú ár. Þessu þarf að breyta.
Magnús var ákaflega stoltur yfir nýja tónlistarskólanum sem kostaði ríflega 500 milljónir króna. Honum fannst framúrakstur upp á einhverja tugi milljóna vera smámunir og fórnarkostnaður! gott ef honum fannst ekki bæjarfulltrúar minnihlutans óttalegir nirflar. Meirihlutinn hefur auðvitað gert margt ágætlega en þeir hafa farið offari í fjárfestingum. Fjárfestingarnar núverandi meirihluta liggja í steinsteypu, en ekki fólki. Því skulum við breyta. Um það getum við Magnús Þór líklega verið sammála.
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 30
- Frá upphafi: 1
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 28
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Snyrtilega að orði komist.
Víðir Benediktsson, 15.5.2008 kl. 21:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.