Uppsagnir hjá HB Granda hf.

Á fundi bæjarstjórnar Akraness í dag 22. janúar 2008 var samþykkt samhljóða ályktun vegna uppsagna hjá HB Granda hf. sem tilkynnt var um í gær.

Í ályktuninni segir m.a.

Bæjarstjórn Akraness harmar að stjórn og stjórnendur HB Granda hf hafi gripið til þeirrar óheillaákvörðunar að segja upp öllum starfsmönnum fyrirtækisins sem vinna í fiskvinnslu á Akranesi og tapa þar með í leiðinni miklum mannauði og trúverðugleika. Ákvörðunin kemur verulega á óvart eftir fyrri yfirlýsingar og fyrirheit stjórnarformannsins, Árna Vilhjálmssonar. Bæjarstjórn lýsir yfir megnri óánægju með ákvörðun stjórnar og stjórnenda fyrirtækisins en með henni eru þeir í raun að semja lokakaflann í 100 ára atvinnusögu útgerðar og fiskvinnslu á Akranesi. Með ákvörðun um stórfelldar uppsagnir starfsfólks í fiskvinnslu...er vegið alvarlega að grundvallar atvinnustarfsemi í bæjarfélaginu og lífsviðurværi bæjarbúa. Bæjarstjórn mótmælir harðlega þeim vinnubrögðum sem stjórnendur fyrirtækisins hafa viðhaft við niðurskurð starfa á Akranesi á undanförnum misserum og ekki síst þeirri ákvörðun sem tilkynnt er nú um. Uppsagnir eru gerðar í nafni hagræðingar sem orkar mjög tvímælis m.a. í ljós ákjósanlegra aðstæðna...til útgerðar og fiskvinnslu...Bæjarstjórn óskar tafarlaust eftir fundi ...með stjórn og stjórnendum HB Granda hf þar sem þeir geri grein fyrir ákvörðunum sínum og framtíðarrekstri fyrirtækisins á Akranesi...

 

Allir þeir bæjarfulltrúar sem tóku til máls gagnrýndu uppsagnirnar harkalega. Guðrún Elsa Gunnarsdóttir, varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins gat margfeldiáhrifa þeirra en uppsagnirnar hafa vitaskuld áhrif á fyrirtæki sem þjónustað hafa HB Granda og hugsanlega starfsmenn þeirra. því má ekki gleyma, málið teygir anga sína víða. Það er mikilvægt fyrir alla Akurnesinga að standa saman í þessu máli og snúa bökum saman gegn hagsmunum þeirra sem hafa eigin gróða- og hagræðingarsjónarmið ein að leiðarljósi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"... Það er mikilvægt fyrir alla Akurnesinga að standa saman í þessu máli og snúa bökum saman gegn hagsmunum þeirra sem hafa eigin gróða- og hagræðingarsjónarmið ein að leiðarljósi...." Ekki mótmæltu Akurnesingar þegar störf voru t.d. flutt frá Sandgerði til Akranes. Þá var bara hugsað um eigin hagsmuni, hagræði og gróða. Hafa Akurnesingar einkarétt á eigin hagsmunagæslu, hagræði og gróða?

sigkja (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 22:45

2 Smámynd: Hrönn Ríkharðsdóttir

Nei, við eigum öll jafnan rétt til að gæta sameiginlegra hagsmuna. Ef við getum verið sammála um að hagsmunir heildarinnar eigi að ganga fyrir hagsmunum einstaklinga þá gætum við verið sammála.

Hrönn Ríkharðsdóttir, 22.1.2008 kl. 23:52

3 identicon

Sammála um það að það sé réttlætanlegt að fjöldinn brjóti á einstaklingnum? Einstaklingurinn hefur sinn rétt og sama þó svo einhverjum hópi fólks hugnist það ekki þá gefur það þeim ekki rétt til að afnema mannréttindi. Flest öll nýðingsverk mannkinssögunnar hafa verið framin undir merkjum hagsmuna heildarinnar. Væri réttlætanlegt að jafna Akranes við jörðu ef meirihluti Íslendinga teldi það vera til hagsbóta fyrir heildina? Það gæti jafnvel verið hagkvæmt að nota íbúa Akranes í varahluti, gott safn líffæragjafa. Það gæti verið heildinni hagstæðast.

sigkja (IP-tala skráð) 23.1.2008 kl. 15:20

4 Smámynd: Hrönn Ríkharðsdóttir

Þú hefur eitthvað misskilið mig eða valið að túlka orð mín mjög frjálslega.

Hrönn Ríkharðsdóttir, 23.1.2008 kl. 16:24

5 identicon

"...Það er mikilvægt fyrir alla Akurnesinga að standa saman í þessu máli og snúa bökum saman gegn hagsmunum þeirra sem hafa eigin gróða- og hagræðingarsjónarmið ein að leiðarljósi...." Semsagt; stöndum saman gegn þeim sem ekki taka hagsmuni íbúa Akranes framyfir eigin afkomu. Enda segir þú: "..að hagsmunir heildarinnar eigi að ganga fyrir hagsmunum einstaklinga..".                 Var ég að misskilja eða sagðir þú eitthvað annað en þú áttir við?

sigkja (IP-tala skráð) 23.1.2008 kl. 17:40

6 Smámynd: Hrönn Ríkharðsdóttir

Sýnt hefur verið fram á að það sé rekstrarlega hagkvæmt og arðvænlegt að reka landvinnslu á Akranesi. Engu að síður taka menn ákvörðun um annað. Stór fiskvinnslufyrirtæki hafa gert svona áður og munu gera aftur, því miður og þar ráða önnur sjónarmið en rekstrarleg för. Nægir þar að nefna Ísafjörð og Seyðisfjörð. Þú nefndir Sandgerði, ég reikna með að þar eigir þú við þegar HB flutti sína vinnslu þaðan. Það var líklega ekkert öðruvísi en HB Grandi er að gera núna á Akranesi. Ég ætla ekki að réttlæta það.

Ég hef hvergi sagt eða skrifað að Akurnesingar eigi að standa saman gegn þeim sem ekki taka hagsmuni Akurnesinga fram yfir eigin afkomu. Það eru þín orð. Ég ver aftur á móti rétt fólks sem býr á Akranesi og annars staðar á landinu til að verja afkomu sína og rétt til lífsviðurværis. Við getum bara verið sammála um að vera ósammála um það.

Svo finnst mér að þú eigir að koma fram undir fullu nafni. 

Hrönn Ríkharðsdóttir, 23.1.2008 kl. 21:14

7 identicon

Það er endalaust hægt að sýna framá að fáránlegustu hlutir séu rekstrarlega hagkvæmir og arðvænlegir. En ef þeir sem standa í rekstrinum segja reksturinn óhagkvæman þá trúi ég þeim frekar. Hvaða sjónarmið önnur en rekstrarleg telur þú að ráði för? Það nægir ekki að nefna Ísafjörð og Seyðisfjörð því þar réðu rekstrarleg sjónarmið för. Viltu að Akranesbær bæti þessum mönnum hugsanlegt tap eða ætlastu til að þeir taki það á sig? Hvað vilt þú borga mikið fyrir að halda þessum störfum?

"Ég hef hvergi sagt eða skrifað að Akurnesingar eigi að standa saman gegn þeim sem ekki taka hagsmuni Akurnesinga fram yfir eigin afkomu.." En þú sagðir: "..Það er mikilvægt fyrir alla Akurnesinga að standa saman í þessu máli og snúa bökum saman gegn hagsmunum þeirra sem hafa eigin gróða- og hagræðingarsjónarmið ein að leiðarljósi."  Hver er munurinn?

Svo nafnleysið sé ekki að angra þig þá kem ég ekki aftur. Takk fyrir mig.

sigkja (IP-tala skráð) 23.1.2008 kl. 23:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Hrönn Ríkharðsdóttir
Hrönn Ríkharðsdóttir
Skagamaður af 54-módelinu, Arsenal-aðdáandi og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akranesi.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 46660

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband