16.1.2008 | 22:32
Forgangsröð og lýðræði
Það eru um margt skemmtilegar umræður sem fara fram á vef Akraneskaupstaðar. Í umræðu um Akraneshöllina sagði Guðmundur Jónsson (sem ég kann ekki frekari skil á) meðal annars:
"Hinsvegar er sjálfsagt að íbúar skiptist á skoðunum um forgangsröðun mála hér í bæ og þá er ekki nema eðlilegt að skiptar skoðanir séu á málum. Mér finnst núverandi meirihluti ekki trúverðugur og að lesa síðustu fundargerð bæjarráðs er bara sorglegt dæmi um stjórnunarhætti þessa fólks. Minnihlutinn vildi fá fulltrúa sína til setu á bæjarráðsfundum og meirhlutinn fellir það vegna kostnaðar sem ekki var hægt að réttlæta. Síðan kemur önnur tillaga þar sem lagt er til að bæjarfulltrúar minnihlutans sitji sem áheyrnarfulltrúar án greiðslu og þá er sú tillaga líka felld. Heldur þetta fólk sem hér heldur um stjórnartaumana að fólk sé almennt algjörir aular !! Ef maður nennir að lesa í gegnum fundargerðir bæjarstjórnar og bæjarráðs sér maður verklagið og það verður ekki merkilegur minnisvarði um suma bæjarfulltrúana í meirihlutanum. Vona bara að Skagamenn bresti ekki minnið þegar kemur að næstu kosningum."
Ég er ein þeirra bæjarbúa sem ekki var hlynnt byggingu Akraneshallarinnar. Yfirbyggð sundlaug kom á undan í forgangsröðinni en ég þurfti ekki að taka þessa ákvörðun á sínum tíma. Ég studdi hins vegar byggingu sundlaugar við afgreiðslu fjárhagsáætlunar í desember 2007 af því að ég tel hana nauðsynlega framkvæmd. Minnihlutinn hefði viljað seinka framkvæmdum aðeins til að draga úr lántökum en sú tillaga var felld.
Ég var líka þeirrar skoðunar að bókasafn ætti að vera á undan tónlistarskóla í framkvæmdaröðinni. Það þýðir ekki að ég sé á móti tónlistarskólanum eins og reynt er að halda fram af bæjarfulltrúum meirihlutans. Bæjarfulltrúar minnihlutans geta að sjálfsögðu glaðst með starfsfólki tónlistarskólans yfir nýju húsnæði en okkur fannst og finnst enn að salurinn hafi verið alltof dýru verði keyptur. En hvað bókasafnið varðar þá vissi ég bara sem formaður Menningarmála- og safnanefndar Akraness að bókasafnið er í algerlega ónýtu húsnæði þar sem allar eðlilegar öryggisaðgerðir skorti. Rafmagni slær út í húsinu vegna þess að raki / vatn kemst að lögnum, eldvarnir eru engar og svo mætti lengi telja.
Eftir alla umræðuna og orrahríðina um tónlistarskóla eða bókasafn verð ég að viðurkenna að mér varð orðavant þegar ég frétti út í bæ að búið væri að ákveða að kaupa hinn endann á verslunarmiðstöðinni á Skagaversreitnum undir bókasafn. Núna var það allt í einu bráðnauðsynlegt að koma bókasafninu í nýtt húsnæði. Hvað hafði eiginlega breyst? Einn bæjarfulltrúi meirihlutans sagði á bæjarstjórnarfundi fyrir ári að hún væri stolt af því að tilheyra þeim hópi fólks sem forðaði því að bókasafnið væri flutt úr núverandi fallegu húsnæði. Vá, maður. Og það er ekki árið liðið! En ég hef nú sagt að það sé eðlileg skýring á þessu öllu saman. Það sé lykilatriði í málinu að tónlistarskólinn sé hægra megin í húsinu og bókasafnið vinstra megin. Það er að minnsta kosti jafngóð skýring og hver önnur.
Mér hefur áður verið tíðrætt um lýðræði og aðeins meira um það vegna þess að meirihlutinn gengur fram með miklum valdhroka og nýtir meirihlutaafl sitt við hvert tækifæri. Ég minni Akurnesinga á þá staðreynd að núverandi meirihluti Sjálfstæðismanna og óháðra situr með minnihluta atkvæða bæjarbúa á bak við sig. Meirihlutaflokkarnir tveir fengu 46,3% atkvæða (1571 atkv.) en minnihluta-flokkarnir þrír fengu 50,9% (1729 atkv). Meirihlutinn núverandi boðaði opna og gagnsæja stjórnsýslu fyrir kosningarnar en það entist ekki nema í viku eftir kosningar.
Ég vona eins og Guðmundur að Skagamenn bresti ekki minnið þegar kemur að næstu kosningum.
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 30
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 28
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.