Saga um samstarf kafli 1.

Þetta er fyrsta færslan mín. Ég hélt að ég myndi aldrei opna blogg-síðu en eftir bæjarstjórnarfund síðastliðinn þriðjudag varð mér ljóst að ég gæti ekki lengur þagað yfir ofríki meirihluta bæjarstjórnar sem hefur ekki áhuga á samstarfi við minnihlutann eða bæjarbúa almennt um neitt nema eigin hugmyndir.  

Kannski þarfnast þetta frekari skýringar því málið á sér lengri sögu. Dropinn sem fyllti mælinn var að allar tillögur sem minnihlutinn lagði til við afgreiðslu fjárhagsáætlunar í desember voru felldar í einu lagi og nánast orðalaust af meirihluta bæjarráðs. Samt var þeim öllum vísað til bæjarráðs með þeim orðum forseta að þar væri að finna margar góðar hugmyndir sem vert væri að skoða frekar.

Í upphafi fyrsta bæjarstjórnarfundar ársins 2008 bauð forseti bæjarfulltrúa velkomna, óskaði þeim gleðilegs árs og óskaði jafnframt eftir góðu samstarfi á nýju ári. Að fundarsetningu lokinni var tekið til við dagskrá fundarins. Meðal annars lá fyrir fundargerð bæjarráðs frá 3. janúar s.l. þar sem fram kom að tillögum minnihlutans hefði verið hafnað. Bæjarfulltrúar minnihluta óskuðu þá eftir að tillögurnar yrðu bornar undir atkvæði á bæjarstjórnarfundinum.  Bæjarfulltrúar meirihlutans endurtóku leikinn og felldu þær aftur. Þetta er í hnotskurn það sem meirihlutinn kallar samstarf.

Hér verða á næstu dögum birtar nokkrar af fyrrnefndum tillögum minnihlutans, áhugasömum lesendum til glöggvunar. Fyrst er það tillaga um kjaramál, afgreiðslan og rökstuðningur meirihlutans fyrir því að hafna henni.

Kjaramál

“Bæjarstjórn Akraness samþykkir að þeir starfsmenn bæjarins sem eru í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar taki laun samkvæmt kjarasamningum félagsins. Ennfremur verði kjör launþega sem tilheyra öðrum stéttarfélögum endurskoðuð með tilliti til launa í nágrannasveitarfélögum.”

 Greinargerð

Það er ljóst að kjör starfsmanna nágrannasveitarfélaganna hafa breyst á síðustu mánuðum. Framundan eru kjaraviðræður og til þess að þær megi ganga vel þarf að leiðrétta hlut þessara launþega áður en til kjarasamninganna kemur.  

Tillagan felld 5:4.  Á móti GS, KJ, HH, ÞÞÞ, EA. Með SK, RH, HR, GPJ.

Meirihluti bæjarstjórnar óskar að eftirfarandi sé bókað sem skýring við höfnun tillögunnar:

Ekki hefur farið fram úttekt á kostnaði sem fylgir þessari tillögu en ljóst er að hann getur haft í för með sér gífurleg útgjöld sem ekki er gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2008. Í gildi eru kjarasamningar sem ekki verður breytt nema með aðkomu Launanefndar sveitarfélaga. Nýir kjarasamningar fara fram á komandi hausti í okt/nóv. Hlutur þeirra lægst launuðu hjá Akraneskaupstað hefur verið bættur eins og kveðið var á um  í málefnasamningi.”

Fjárhagsáætlun kaupstaðarins er bólgin svo notuð séu orð bæjarstjórans. Fyrir dyrum standa framkvæmdir upp á hundruði milljóna. Meirihluti bæjarstjórnar hefur ákaft varið framkvæmdir síðasta árs í heild og ekki síður framúrakstur við einstaka verk. Menn tala um að gera verði kröfur um ýtrustu gæði. Í því samhengi skipta milljónirnar ekki máli, en þegar kemur að því að borga starfsmönnum sveitarfélagsins laun sem standast samanburð við launakjör á höfuðborgarsvæðinu, þá heitir það "gífurleg útgjöld".

 


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Hrönn Ríkharðsdóttir
Hrönn Ríkharðsdóttir
Skagamaður af 54-módelinu, Arsenal-aðdáandi og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akranesi.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 46667

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband